Tom Manoury valinn til þátttöku í YRKJU með MENGI

TomManoury2.jpg

Frestur til að sækja um þátttöku í Yrkju með Mengi, starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar, rann út á miðnætti 1. maí síðastliðinn. Níu umsóknir bárust og voru allar lagðar fyrir dómnefnd á fundi þann 10. maí að afstöðnu skoðunarferli. Í dómnefndinni sátu Berglind María Tómasdóttir tónskáld og flautuleikari, Elísabet Indra Ragnarsdóttir verkefnastjóri Mengis og Skúli Sverrisson tónlistarmaður og mentor verkefnisins.

Niðurstaða dómnefndar var að bjóða Tómasi Manoury til þátttöku í verkefninu eða eins og segir í umsögn dómnefndar:

„Níu umsóknir bárust í Yrkjuverkefni Tónverkamiðstöðvar og Mengis. Við mat á umsóknum var hvort tveggja litið til bakgrunns þátttakenda og umsóknar en einnig horft til starfsemi Mengis sem hefur lagt mikla áherslu á spunatónlist, tilraunir og viðburði þar sem ólíkum listgreinum er blandað saman. Með hliðsjón af því hefur dómnefnd ákveðið að bjóða Tómasi Manoury til þátttöku í Yrkjuverkefni Tónverkamiðstöðvar og Mengis. Við hlökkum til samstarfsins.“

Verkefnið hefst formlega þann 31. maí næstkomandi og mun standa í um níu mánuði. Verkefninu lýkur með tónleikum í Mengi þar sem verk Tómasar verður frumflutt.

Við bjóðum Tómas velkominn til YRKJU!

YRKJA II með Sinfóníuhljómsveit Íslands

FinnurÞRÁINN2

Frestur til að sækja um þátttöku í Yrkju II með Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ), starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar, rann út á miðnætti 3. apríl síðastliðinn. Níu umsóknir bárust og voru allar lagðar fyrir dómnefnd á fundi þann 18. apríl að afstöðnu skoðunarferli. Í dómnefndinni sátu Anna Þorvaldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Una Sveinbjarnardóttir, Þuríður Jónsdóttir og Daníel Bjarnason sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Afar erfitt var fyrir dómnefndina að velja einungis eitt tónskáld til þátttöku. Dómnefnd mæltist þess vegna til að tveimur tónskáldum yrði boðin þátttaka í YRKJU-verkefninu að þessu sinni og varð niðurstaðan sú að bjóða þeim Þráni Hjálmarssyni og Finni Karlssyni báðum til þátttöku eða eins og segir í umsögn:

Dómnefnd hefur farið yfir umsóknir um þátttöku í YRKJU II með Sinfóníuhljómsveit Íslands og metur tvo umsækjendur hæfasta. Dómnefnd var falið að velja eitt tónskáld en í ljósi styrkleika tveggja umsækjenda, Þráins Hjálmarssonar og Finns Karlssonar, er mælt með að þeim verði báðum boðin þátttaka í verkefninu ef þess er kostur.

Við bjóðum Þráin og Finn velkomna í YRKJU.

Verkefnið hefst formlega þann 7. maí næstkomandi og mun standa í um níu mánuði. Verkefninu lýkur með tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar en þá mun hljómsveitin frumflytja YRKJU-verk Þráins og Finns ásamt verki Þórunnar Grétu Sigurðardóttur sem tók þátt í YRKJU I með SÍ.

AUGLÝST EFTIR UMSÓKNUM: YRKJA II með MENGI

Tónverkamiðstöð og Mengi kalla nú eftir umsóknum frá tónskáldum um þátttöku í YRKJU með Mengi. Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. maí 2016.

logo_net

YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar og veitir tónskáldum sem stödd eru á fyrri hluta starfsferils síns, tækifæri til að vinna með úrvali íslenskra listastofnana.

Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið hornsteinn í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld sem eru á fyrri hluta starfsferilsins. YRKJA undirbýr tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. YRKJA getur brúað bilið milli háskólanáms og starfsferils en í verkefninu fær tónskáldið tækifæri til að þróa hæfileika sína og listrænan metnað, öðlast starfsreynslu og mynda tengsl í tónlistargeiranum.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í verkefninu hittast og deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

Tónverkamiðstöð og Mengi bjóða einu tónskáldi tækifæri til þátttöku.

Á tímabilinu, sem mun spanna um níu mánuði, mun tónskáldið þróa færni sína í að vinna nýtt tónverk frá grunni og vinna að frumflutningi verksins.

Tónskáldið mun vinna nýtt tónverk til flutnings í Mengi undir handleiðslu Skúla Sverrissonar tónlistarmanns og listræns stjórnanda Mengis.

12118623_830932100353096_9065000078325669077_n

Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. maí 2016.

ATH! Verkefnið er opið öllum óháð aldri sem hafa að lágmarki lokið grunnnámi í tónsmíðum eða tengdu námi og hafa útskrifast á síðustu 10 árum.

SMELLIÐ HÉR til að fá nánari upplýsingar um umsóknarferli fyrir YRKJU með Mengi